Helgafellssveit

Eftirfarandi umfjöllun er tekin upp úr aðalskipulagi Helgafellssveitar.

Helgafellssveit er á norðanverðu Snæfellsnesi. Aðliggjandi sveitarfélög eru: Grundarfjarðarbær í vestri, Stykkishólmsbær í norðri, Dalabyggð í austri, Snæfellsbær og Eyja-og Miklaholtshreppur í suðri.

Helgafellssveit liggur að Breiðafirði sunnanverðum. Hraunsfjörður er vestasti fjörðurinn í hreppnum, en sá austasti er Álftafjörður. Frátalið er svo það strandsvæði sem tilheyrir Stykkishólmi. Ströndin er mjög vogskorin. Norðantil næst ströndinni er láglendi að undanskildum svæðum við Seljafell (229 m), Bjarnarhafnarfjall (575 m) og Úlfarsfell (245 m), en þau fjöll rísa mjög nálægt ströndinni. Þá gengur Berserkjahraun, mikil hraunbreiða, niður í fjöru á kafla við Hraunsfjörð og Hraunsvík. Önnur stór hraunbreiða er austar í sveitarfélaginu og liggur hærra í landinu. Það hraun nefnist Svelgsárhraun og skiptist í tvær hraunkvíslar. Fjöllin á suðurmörkum sveitarfélagsins eru mikil og mörg. Þrjú stór stöðuvötn eru í hreppnum, Selvallavatn, Hraunsfjarðarvatn og Baulárvallavatn. Önnur vötn eru minni s.s. Sauravatn, Helgafellsvatn, Hofsstaðavatn, Kothraunsvatn, Skjaldarvatn og Vatnsdalsvatn. 

Helgafellssveit er í umdæmi Vesturlandsskóga og eru ráðgjafar starfandi á Hvanneyri í Borgarbyggð. Í Helgafellssveit eru fjögur svæði á Náttúruminjaskrá 1996, samkvæmt lögum um náttúruvernd nr. 44/1999. Margar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar í Helgafellssveit, lang flestar í lok 19. aldar og á fyrri hluta þeirrar 20. 

Hreppurinn er aðili Earth Check verkefninu, sem öll sveitarfélög á Snæfellsnesi standa að og felst í því að sættast á sameiginlega stefnumótun í sjálfbærri þróun í umhverfis- og samfélagsmálum á Snæfellsnesi með aðaláherslu á ferðaþjónustu.