Samstarfsnefnd hefur afgreitt álit sitt og helstu forsendur og vísað til tveggja umræðna í sveitarstjórnum. Samstarfsnefnd leggur áherslu á virkt samráð við íbúa og lét það vera sitt fyrsta verk að halda samráðsfundi í hvoru sveitarfélagi, sem fram fóru fyrir jól. Þátttakendur á samráðsfundum sáu ýmis tækifæri við sameiningu sveitarfélaganna, en jafnframt miklar áskoranir. Áskoranirnar lúta fyrst og fremst að mismunandi skatthlutföllum og áhyggjum íbúa í dreifbýli af því að missa áhrif á ákvarðanir í nærumhverfi sínu. Tækifæri liggja helst í að bæta þjónustu við íbúa beggja sveitarfélaga, auka fjárfestingagetu og skapa tækifæri til fjárfestinga sem nýtist íbúum beggja sveitarfélaga, t.a.m. með því að byggja við skólahúsnæði, bæta aðstöðu fyrir eldri borgara og íþróttaaðstöðu og auka slagkraft til að bæta samgöngur og þjónustu hins opinbera.
Samstarfsnefndin hefur ákveðið að fjalla sérstaklega um fjóra málaflokka og fá stjórnendur og sérfræðinga á sína fundi. Sú vinna heldur áfram og verða minnisblöð frá þeirri vinnu birt á heimasíðu verkefnisins helgafellssveit.is eftir því sem vinnunni vindur fram.
Álit nefndarinnar og helstu forsendur
Sveitarfélögin tvö hafa átt í farsælu samstarfi til áratuga og getur sameining þeirra skapað tækifæri til skilvirkari og markvissari stjórnsýslu og þjónustu auk þess sem aðgengi íbúa að þjónustu verði jafnara með áherslu á aukna þjónustu við dreifbýlið. Þá eru jafnframt tækifæri eru til frekari atvinnuþróunar og nýsköpunar enda eru tækifæri til þess að sameiginlegt sveitarfélag geti betur skapað heildstætt og kröftugt umhverfi á öllu svæðinu fyrir öflugt atvinnulíf og aukna samvinnu. Vísbendingar eru um að fjárhagur sameinaðs sveitarfélags verði sterkur og fjárfestingageta betri en hjá hvoru sveitarfélagi um sig, en til viðbótar mun 600 milljóna kr. sérstök sameiningarframlög á næstu árum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga skapa aukið svigrúm til fjárfestinga í sameinuðu sveitarfélagi. Þá eru jafnframt vísbendingar um að árleg framlög Jöfnunarsjóðs hækki um 5 mkr. á ári í sameinuðu sveitarfélagi.
Samstarfsnefndin leggur til að í stjórnskipulagi sameinaðs sveitarfélags verði nefnd sem fjalli sérstaklega um hagsmuni dreifbýlisins. Fulltrúar í nefndina verði kosnir beinni kosningu af íbúum í núverandi Helgafellssveit. Vinnuheiti nefndarinnar er Sveitaráð. Á þann hátt verði komið til móts við áhyggjur íbúa í dreifbýli af því að missa áhrif á ákvarðanatöku. Jafnframt leggur samstarfsnefndin til að ný sveitarstjórn leiti leiða til að breytingar á skattheimtu verði ekki mjög íþyngjandi.
Það er álit nefndarinnar að íbúar sveitarfélaganna skuli fá tækifæri til að kjósa um sameiningu sveitarfélaganna í eitt. Það er jafnframt álit nefndarinnar að sameiningin muni hafa fleiri kosti í för með sér en galla og henni fylgi mörg tækifæri sem annars stæðu sveitarfélögunum ekki til boða.
Lagt er til að atkvæðagreiðsla fari fram 26. mars 2022 í báðum sveitarfélögunum.